Lög Skátafélagsins

LÖG SKÁTAFÉLAGSINS KLAKKS

EFTIR SAMÞYKKTAR LAGABREYTINGAR 2020

 

 

1. GREIN.  UM EÐLI OG MARKMIÐ.

1.1. Félagið heitir Skátafélagið Klakkur kt. 450387-1859. Aðsetur þess og varnarþing er á Akureyri.

1.2. Félagið er stofnað með sameiningu Skátafélags Akureyrar og Kvenskátafélagsins Valkyrjunnar á Akureyri. Félagið er beinn arftaki þessara félaga og tekur við öllum réttindum og skyldum þeirra.

1.3. Félagið er aðili að Bandalagi íslenskra skáta og ber að starfa eftir lögum þess og alþjóðasamtökum skáta. Starfi skátasamband á svæðinu getur félagið verið aðili að því.

1.4.  Markmið félagsins er að þroska börn og ungt fólk til að verða, sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu. Þessum markmiðum hyggst félagið meðal annars ná þannig:

MEÐ HÓPVINNU til að þroska samstarfshæfileika, tillitssemi og stjórnunarhæfileika.

MEÐ ÚTILÍFI til að efla líkamsþrek og vekja áhuga á náttúrunni og löngun til að vernda hana.

MEÐ VIÐFANGSEFNUM AF ÝMSU TAGI til að kenna og þjálfa skátana í ýmsum störfum nytsömum sjálfum sér og öðrum.

MEÐ ÞÁTTTÖKU Í ALÞJÓÐASTARFI SKÁTAHREYFINGARINNAR til að gefa skátunum tækifæri til að kynnast ungu fólki í öðrum löndum, háttum þess og menningu.

 

2. GREIN.  UM AÐILD AÐ FÉLAGINU.

2.1. Til að gerast félagi þarf viðkomandi að vera að minnsta kosti sjö ára og ljúka á næstu starfsmánuðum nýliðatíma sínum samkvæmt þeim kröfum sem gerðar eru til hans aldursflokks. Fullgildir félagar teljast þeir sem greitt hafa árgjald fyrir yfirstandandi starfsár.

2.2. Styrktarfélagi og/eða hjálparfélagi getur hver og einn borgari orðið sem óskar þess og stjórn félagsins samþykkir.

2.3. Sérskátar og samtök þeirra eins og t.d. Hjálparsveitir, sjóskátar, radíóskátar og samtök eldri skáta geta orðið aðilar að félaginu, samþykki aðalfundur það.

2.4. Félögum ber að hafa í heiðri þau heit er þeir hafa gefið og taka þátt í öllu starfi á vegum félagsins nema sérstök forföll hamli. Þeim ber að fara að reglum þeim er stjórn félagsins setur um einstaka þætti starfseminnar. Fyrir brot á ákvæði þessu skal viðkomandi foringi beita áminningu. Fyrir ítrekað eða alvarlegt brot getur foringjaráð beitt brottvikningu um stundarsakir eða að fullu. Sama á við um brot á öllum almennum velsæmisreglum og borgaralegum lögum.

 

3. GREIN.  UM UPPBYGGINGU OG STJÓRNUN.

3.1. Félagið starfar í aðalatriðum samkvæmt uppbyggingu skátafélaga eins og henni er lýst í lögum BÍS. Stjórn og foringjaráð félagsins ákveður skiptingu félagsins t.d. í deildir, sveitir og flokka allt eftir aldri, þroska og viðfangsefnum skátanna og því sem heppilegt telst hverju sinni.  

3.2. Aðalfundur kýs stjórn félagsins sem skipuð er sjö mönnum og skulu þeir allir vera fjárráða. Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Stjórninni er heimilt að ráða launaða starfsmenn að félaginu. Stjórn skipar fulltrúa félagsins á Skátaþing BÍS og aðalfund skátasambands í samráði við foringjaráð. Stjórnin skiptir með sér verkum og embættum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund, nema hvað félagsforingi er kosinn sérstaklega í embættið. Verkaskipting stjórnarmanna skal í aðalatriðum vera eftirfarandi.

FÉLAGSFORINGI er leiðtogi alls skátastarfs á vegum félagsins. Hann boðar til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Hann er málsvari félagsins gagnvart opinberum aðilum og gagnvart stjórn BÍS og annarra samtaka skáta. Félagsforingi skipar foringja og embættismenn félagsins.

AÐSTOÐARFÉLAGSFORINGI er staðgengill félagsforingja og leiðir starf foringjaráðs og foringjaþjálfun.

RITARI færir fundargerðir stjórnar, annast bréfaskriftir og skjalavörslu félagsins. Hann fer með stjórn útgáfumála og skrifstofu.

GJALDKERI annast fjárreiður félagsins, bókhald, fjárvörslu og ávöxtun fjár. Hann ber ábyrgð á fjáröflunum félagsins og starfsmannahaldi.

EIGNAVÖRÐUR annast eignir félagsins, fasteignir og lausamuni og ber ábyrgð á rekstri þeirra og viðhaldi.

Auk tveggja meðstjórnenda

3.3. Kjörtímabil stjórnarmanna annarra en félagsforingja er tvö ár og skal kjósa þrjá á hverjum aðalfundi. Félagsforingja skal kjósa árlega. Félagsforingi má ekki sitja meira en 4 kjörtímabil samfleytt. Forfallist stjórnarmaður skipar stjórn í samvinnu við foringjaráð annan í hans stað fram að næsta aðalfundi.

3.4. Með stjórn starfar foringjaráð sem í eiga sæti allir foringjar aðrir en flokksforingjar og allir embættismenn félagsins. Foringjaráð í samráði við stjórn setur félaginu starfsáætlun milli aðalfunda, annast dagskrármál félagsins, hefur umsjón með starfi félagsins og foringjaþjálfun, ákvarðar árgjald og setur reglugerðir í samræmi við lög þessi. Foringjaráð skal kalla saman minnst þrisvar á starfsárinu, einu sinni á hverju starfstímabili. Stjórn eða meirihluti foringja getur kallað saman foringjaráð. 

 

4. GREIN.  UM AÐALFUND.

4.1. Aðalfund skal halda í félaginu á tímabilinu febrúar-maí ár hvert. Boða skal til

fundarins með minnst viku fyrirvara með auglýsingu á helstu netmiðlum félagsins og með veggauglýsingu í skátaheimilum. Vanræki stjórn að boða til aðalfundar vísast til laga

BÍS um aðalfundi félaga.

 

4.2.  Aðalfund skal halda í félaginu á tímabilinu febrúar-maí ár hvert. Boða skal til fundarins með minnst viku fyrirvara með auglýsingu á helstu netmiðlum félagsins og með veggauglýsingu í skátaheimilum. Vanræki stjórn að boða til aðalfundar vísast til laga BÍS um aðalfundi félaga.

 

4.3.  Rétt til fundarsetu hafa:

MEÐ ATKVÆÐISRÉTT: allir fullgildir félagar 15 ára og eldri, og auk þess forráðamenn fullgildra félaga sem eru 14 ára eða yngri. Hver forráðamaður fer þó aðeins með eitt atkvæði.

MEÐ MÁLFRELSI OG TILLÖGURÉTT forráðamenn skáta í félaginu, styrktarfélagar og þeir er stjórn býður sérstaklega á fundinn, eða fundurinn ákveður. Að öðru leyti vísast til laga BÍS og skátasambands um rétt til fundarsetu.

4.4.  Aðalfundur kýs þriggja manna uppstillingarnefnd sem leitar að hæfum einstaklingum til stjórnarstarfa fyrir félagið í eftirtalin embætti fyrir aðalfund hvert ár.

1.      Félagsforingja, sem kosinn er til eins árs.

2.      Þrír af sex meðstjórnendum.

3.      Tveimur endurskoðendum, sem kosnir eru til eins árs.

4.      Þremur í uppstillingarnefnd, sem kosnir eru til eins árs. 

Uppstillingarnefnd skal leitast við í tillögum sínum að hlutföll milli kynja í stjórn félagsins séu sem næst því sem gerist meðal meðlima í félaginu.

4.5.  Stjórn og foringjaráð skal sjá til þess að á fundinum séu í aðgengilegu formi fyrir fundarmenn upplýsingar um starfsemi félagsins.

1.     Skýrsla um starfsemi félagsins, deilda og sérverkefna.

2.     Endurskoðaðir reikningar.

3.     Uppgjör fyrir fjáraflanir félagsins á árinu og önnur verkefni sem hafa sjálfstæðan fjárhag.

4.     Starfsáætlun næsta starfsárs.

5.     Fjárhagsáætlun næsta starfsárs.

6.     Tillögur uppstillingarnefndar.

4.6.  Dagskrá aðalfundar.

1.     Fundarsetning.

2.     Kosning fundarstjóra og fundarritara.

3.     Skýrsla stjórnar lögð fram.

4.     Ársreikningar lagðir fram.

5.     Umræður og afgreiðsla skýrslu stjórnar og reikninga.

6.     Fjárhagsáætlun næsta starfsárs lögð fram.

7.     Starfsáætlun næsta starfsárs lögð fram.

8.     Umræður og afgreiðsla starfsáætlunar og fjárhagsáætlunar.

9.     Lagabreytingar.

10.   Önnur mál.

11.   Kosningar samkvæmt grein 4.4. í lögum þessum.

12.   Fundarslit.

5. GREIN. UM FJÁRMÁL OG EIGNIR.

5.1. Fjárhagur félagsins skal tryggður með árgjöldum félaganna, styrkjum, fjáröflunum og rekstrarhagnaði af ýmiskonar starfsemi.

5.2. Stjórn félagsins ber að sjá til þess að rekstur og skuldbindingar félagsins sé ávallt í samræmi við fjárhag þess og samþykkta fjárhagsáætlun.

5.3. Halda skal skrá yfir helstu eignir félagsins og verðmæti þeirra. Hér er átt við fasteignir, hlutabréf, eignarhluti í öðrum félögum, bankainnistæður og bifreiðar og tæki. 

5.4. Sala eða önnur varanleg ráðstöfun fasteigna félagsins er háð samþykki aðalfundar. Óheimilt er að veðsetja fasteignir félagsins.

5.5. Óheimilt er að samþykkja ábyrgð einstaklinga fyrir fjárhagskuldbindingum vegna lántöku í þágu félagsins.

5.6. Fasteignir Skátafélagsins Klakks eru vistaðar í sérstöku eignarhalds- og rekstrarfélagi í eigu þess. Félagið heitir Hamrar útilífs-og umhverfismiðstöð skáta kt.430698-3469. Félag þetta starfar samkvæmt sérstakri samþykkt, hefur sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag. Aðalfundur Hamra fjallar málefni félagsins og kýs stjórn þess. Vanræki stjórn Hamra að boða til aðalfundar ber stjórn Klakks að hlutast til um að það sé gert samkvæmt samþykktum um félagið. 

 

6. GREIN.  UM LÖG FÉLAGSINS.

6.1. Lögum félagsins má breyta á aðalfundi með meirihluta atkvæða enda hafi stjórn borist tillaga um lagabreytinguna með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara. Tillögurnar skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins þessa tvo daga.

6.2. Ákveði aðalfundur að félagið hætti starfsemi eða starfsemi þess leggst niður af öðrum orsökum skal aðalfundur ákveða ráðstöfun eigna félagsins í samræmi við lög BÍS. Að öðrum kosti endurskoðendur félagsins og stjórn BÍS.

6.3. Stjórn félagsins ber að sjá til þess að ávallt sé til í aðgengilegu formi fyrir félagsmenn eintak af lögum þessum ásamt reglugerðum sem foringjaráð setur í samræmi við þau.

 

6.4. Lög þessi eru sett á stofnfundi félagsins 22. febrúar 1987 og öðlast gildi samkvæmt bókun aðalfundar Skátafélags Akureyrar og Kvenskátafélagsins Valkyrjunnar Akureyri 12. febrúar 1987. Breytingar voru gerðar á lögum á aðalfundi 1988, 1990, 1992, 1993, 1997, 2001, 2003, 2004, 2005, 2010, 2012, 2014, 2019 og nú síðast á Aðalfundi félagsins 24. febrúar 2020 öðlast þegar gildi.